Hvað ber að tilkynna?

Umdæmisráð barnaverndar

Samkvæmt lögunum eru umdæmisráð barnaverndar nýjar stjórnsýslunefndir sem fara með úrskurðarvald í ákveðnum barnaverndarmálum á vettvangi sveitarfélaga. Að meginstefnu til eru umdæmisráðum barnaverndar falin þau verkefni sem barnaverndarnefndir fara með að gildandi lögum og hafa ekki heimildir til að framselja til starfsmanna. Umdæmisráðin eru skipuð til fimm ára, eru sjálfstæð í störfum sínum, standa utan við almenna stjórnsýslu sveitarfélaga og ráðsmenn taka ekki við fyrirmælum um meðferð einstakra mála. Umdæmisráð eru skipuð þremur ráðsmönnum sem hafa ákveðna fagþekkingu, þ.e. félagsráðgjafa, sálfræðingi og lögfræðingi, og skulu þeir hafa í það minnsta þriggja ára starfsreynslu í barnavernd.

Skipan umdæmisráða felur í sér veigamikið nýmæli enda hefur löggjöf um sveitarstjórnarstigið fram til þessa ekki gert ráð fyrir spun sjálfstæðra stjórnsýslunefnda. Samkvæmt skýringum í greinargerð er litið svo á að starfsemi umdæmisráða fari fram á sama stjórnsýslustigi og önnur stjórnsýsla sveitarfélaga og að umdæmisráð teljist því ekki æðri stjórnvöld gagnvart sveitarfélögunum þ.m.t. barnaverndarþjónustunni. Í greinargerð segir jafnframt að ákvæði sveitarstjórnarlaga um nefndir, ráð og stjórnir, starfsmenn sveitarfélaga og samvinnu þeirra gildi ekki um starfsemi umdæmisráða. Um þau gildi aftur á móti almennar reglur um starfsemi fjölskipaðra stjórnvalda, þ.m.t. stjórnsýslulög.

Umdæmisráðin eru fjögur:

Umdæmisráð Reykjavíkur: Reykjavík

Umdæmisráð í Kraganum: Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Kjósarhreppur, Seltjarnarnes

Umdæmisráð Reykjaness og hluta af Suðurlandi: Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Vogar, Grindavík, Árborg, Ásahreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skaftárhreppur

Umdæmisráð Landsbyggðarinnar: Öll önnur sveitarfélög (hér undir heyra þau sveitarfélög sem eru aðilar að Skóla-og velferðarþjónustu Árnesþings bs.)