Skólastarfið

Tölvupóstur: skolathjonusta@arnesthing.is

Skólaþjónustan starfar á grundvelli reglugerðar nr. 444/2019 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum og skv. lögum um grunnskóla nr. 91/2008.


Skólaþjónusta tekur annars vegar til stuðnings við nemendur í leik- og grunnskólum og foreldra þeirra og hins vegar stuðnings við starfsemi skóla og starfsfólk þeirra.

Markmið með skólaþjónustu sveitarfélaga er að kennslufræðileg, sálfræðileg, þroskafræðileg og félagsfræðileg þekking nýtist sem best í skólastarfi.

Skólaþjónusta skal beinast að því að efla skóla sem faglegar stofnanir sem geti leyst flest þau viðfangsefni sem upp koma í skólastarfi og veita starfsfólki skóla leiðbeiningar og aðstoð við störf sín eftir því sem við á.


Meðal verkefna skólaþjónustunnar eru m.a.:

 1. Að tilnefna tengiliði og málstjóra sveitarfélaganna og byggðasamlagsins í samræmi við ákvæði reglugerðar um tengiliði og málstjóra samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna nr. 1180/2022,
 2. að veita skólaþjónustu og ráðgjöf skv. reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum, nr. 444/2019, sem á stoð í 40. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 og 21.–23. gr. laga um leikskóla, nr. 90/2008,
 3. að veita náms- og starfsráðgjöf skv. 3. mgr. 13. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008,
 4. að starfa í umboði stjórnar þar sem teknar eru ákvarðanir um þá aðstoð sem sótt er um/eða lögð til af starfsfólki skóla- og velferðarþjónustunnar.
 5. Önnur verkefni samkvæmt ákvörðun stjórnar byggðasamlagsins.

Áhersla skal einnig lögð á eftirfarandi skv. reglugerð nr. 444/2019:

 1. forvarnarstarf til að stuðla markvisst að velferð nemenda,
 2. snemmtækt mat á stöðu nemenda og ráðgjöf vegna námsvanda, félagslegs og sálræns vanda með áherslu á að nemendur fái kennslu og stuðning við hæfi í skólum án aðgreiningar,
 3. að skólaþjónusta mótist af heildarsýn á aðstæður og hagsmuni nemenda, óháð starfsstéttum sérfræðinga og hver veitir þjónustuna,
 4. að styðja á fjölbreyttan hátt við starfsemi og starfshætti í leik- og grunnskólum og starfsfólk þeirra,
 5. stuðning við foreldra með ráðgjöf og fræðslu,
 6. viðeigandi túlkaþjónustu til að tryggja að upplýsingar/ráðgjöf nýtist foreldrum og nemendum,
 7. góð tengsl leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla með samfellu og heildarsýn í skólastarfi að leiðarljósi.

Við gerð símenntunaráætlana skv. 7. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla og 12. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla skal lögð áhersla á að efla þekkingu starfsfólks leik- og grunnskóla á því að leysa viðfangsefni samkvæmt reglugerð þessari innan skólanna.