Sérfræðiþjónusta

Við framkvæmd skólaþjónustu skal samkvæmt reglugerð lögð áhersla á:

  1. Forvarnarstarf til að stuðla markvisst að velferð nemenda,
  2. Snemmtækt mat á stöðu nemenda og ráðgjöf vegna námsvanda, félagslegs og sálræns vanda með áherslu á að nemendur fái kennslu og stuðning við hæfi í skólum án aðgreiningar,
  3. Að skólaþjónusta mótist af heildarsýn á aðstæður og hagsmuni nemenda, óháð starfsstéttum sérfræðinga og hver veitir þjónustuna,
  4. Að styðja á fjölbreyttan hátt við starfsemi og starfshætti í leik- og grunnskólum og starfsfólk þeirra,
  5. Stuðning við foreldra með ráðgjöf og fræðslu,
  6. Viðeigandi túlkaþjónustu til að tryggja að upplýsingar/ráðgjöf nýtist foreldrum og nemendum,
  7. Góð tengsl leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla með samfellu og heildarsýn í skólastarfi að leiðarljósi.

Sérfræðiþjónusta:

Kennsluráðgjöf

Hlutverk kennsluráðgjafa er að  veita skólastjórnendum, kennurum og öðru starfsfólki skóla ráðgjöf, stuðning og handleiðslu til að finna leiðir sem mæta þörfum nemenda.

Með kennsluráðgjöf er veitt snemmtækt mat á stöðu nemenda með ráðgjöf vegna námsvanda, félagslegs og/eða sálræns vanda með það að markmiði að nemendur frá kennslu og stuðning við hæfi í skólum án aðgreiningar.

Beiðni um kennsluráðgjöf berst til deildarstjóra skólaþjónsutu á þar til gerðum eyðublöðum og  skulu berast gegnum skjalamóttöku (Signet Transfer) á heimasíðu Skóla- og velferðarþjónustu. Ekki er nauðsynlegt að fjalla um beiðni til kennlsuráðgjafa í nemendaverndarráði þar sem slík ráðgjöf er liður í snemmtækri íhlutun í þjónustu.

Sálfræðiþjónusta

Hlutverk sálfræðings er að athuga og greina vanda nemenda sem ná ekki að nýta hæfileika sína í námi og starfi og eiga í námslegum, sálrænum og/eða félagslegum erfiðleikum. Sálfræðingur leggur fyrir viðeigandi matslista og greinir stöðu nemanda og skilar niðurstöðu til forráðamanna og skóla. Sálfræðingur sendir niðurstöður greininga áfram á viðeigandi aðila til að barn fái fullnaðargreiningu þegar þess gerist þörf.

Beiðni frá skólum um mat og greiningu hjá sálfræðingi berst til deildarstjóra skólaþjónsutu á þar til gerðum eyðublöðum eftir umfjöllun í nemendaverndarráði. Beiðnir skulu berast gegnum skjalamóttöku (Signet Transfer) á heimasíðu Skóla- og velferðarþjónustu.

Þjónusta talmeinafræðings

Hlutverk talmeinafræðings er að annast athuganir og greiningar á tal- og málþroska nemenda. Ef um staðfest frávik er að ræða veitir talmeinafræðingur ráðgjöf, meðferð og þjálfun eftir því sem við á og við verður komið. 

Beiðni frá skólum um mat og greiningu hjá talmeinafræðingi berst til deildarstjóra skólaþjónsutu á þar til gerðum eyðublöðum eftir umfjöllun í nemendaverndarráði. Beiðnir skulu berast gegnum skjalamóttöku (Signet Transfer) á heimasíðu Skóla- og velferðarþjónustu.

Uppeldis- og foreldraráðgjöf

Eitt af verkefnum skólaþjónustu er að styðja við foreldra með ráðgjöf og fræðslu. Foreldrar geta fengið samtal við uppeldisráðgjafa um þætti er snúa að uppeldi, skólagöngu og öðrum þáttum í lífi fjölskyldna og barna.

Markmkið foreldraráðgjafar er að veita foreldrum viðeigandi upplýsingar og ráðgjöf um uppeldi, efla foreldra í uppeldisaðferðum, fá foreldra til að ígrunda foreldrahlutverkið.

Beiðni um ráðgjöf sendist á netfangið skolathjonusta@arnesthing.is. Samtöl fara fram á starfsstöð SVÁ í Laugarási eða í viðkomandi sveitarfélagi eftir því sem við á/óskað er eftir.

Náms- og starfsráðgjöf

Hlutverk náms- og starfsráðgjafa er að standa vörð um velferð allra nemenda. Hann vinnur með nemendum, forráðamönnum, kennurum, skólastjórnendum og öðrum starfsmönnum skólans að ýmis konar velferðarstarfi er snýr að námi, líðan og framtíðaráformum nemenda. Náms- og starfsráðgjafi er með fasta viðveru í grunnskólum á svæðinu og má nálgast upplýsingar í viðkomandi skóla hvaða daga vikunnar hann er á hverjum stað.

Náms- og starfsráðgjafi er trúnaðarmaður og talsmaður nemenda.