Loka valmynd

Félag eldri Hrunamanna

Félag eldri Hrunamanna

Félag eldri Hrunamanna var stofnað 1983 og hefur starf þess verið öflugt og gefandi. Félagið hefur aðstöðu á kjallara Heimalands með fallegu útsýni yfir sveitina okkar og fjallgarðinn í Biskupstungum. Í Heimalandi eru sjö íbúðir á vegum sveitarfélagsins ætlaðar eldri borgurum.

Vetrarstarfið hefst fyrsta þriðjudag októbermánaðar þegar félagar hittast í kjallaranum. Þar eru þrír leiðbeinendur sem kenna ýmiss konar handverk. Bókbindari kennir bókaband og tvær félagskonur veita tilsögn í alls konar handavinnu m.a. í gerð skartgripa, saumaskap, málun, kortagerð, prjónverki o.fl. Nokkrir félagar spila alltaf bridge þennan dag. Húsið er opið frá kl 13-17 og er kaffi og meðlæti til sölu á mjög hagstæðu verði. Þessu starfi lýkur í lok apríl með veigamikilli handverkssýningu.

Þriðja miðvikudag í mánuði er ,,Opið hús” í Félagsheimili Hrunamanna.

Þar fer fram dagskrá í umsjón félagsmanna. Dagskráin er fjölbreytt og þeir tveir félagar, sem sjá um hana hverju sinni, hafa frjálsar hendur um val á efni. Oft eru myndasýningar, upplestur, söngur og önnur tónlistaratriði. Í lokin eru kaffiveitingar. Opið hús er yfirleitt fimm sinnum á vetri.

Eldri borgarar hafa stofnað kór er nefnist Söngsveitin tvennir tímar.

Kórstjóri er Stefán Þorleifsson. Æfingar eru einu sinni í viku. Kórinn kemur oft fram, syngur við messur á haustin og í upphafi nýs árs, á aðventusamkomum, á árshátíð félagsins og heldur einnig sjálfstæða tónleika. Einnig er samstarf við aðra eldri borgara kóra á Suðurlandi.

Tvær leikhúsferðir eru á hverjum vetri.

Farið er í ýmsar ferðir. Þegar vetrarstarfið hefst er farið í verslunarferð til Reykjavíkur og margt gert í þeirri ferð og þegar vetrarstarfinu lýkur er farin dagsferð út í vorið. Í lok maí er farið í þriggja daga ferð innanlands og einu sinni var farið til Færeyja. Um mitt sumar bjóða kvenfélagskonur félagsmönnum í eins dags ferð.

Yfir sumartímann eru gönguferðir á þriðjudagsmorgnum. Gönguhraði er miðaður við getu göngumanna. Einnig hefur verið kennt youga, þátttakendum til mikillar ánægju.

Dagur aldraðra er 1. október ár hvert. Af því tilefni fóru nokkrir félagar í Flúðaskóla og ræddu við nemendur í 7., 8. og 10. bekk. Þessi stund með þeim var ánægjuleg og tóku unglingarnir vel á móti hópnum.

Mörg undanfarin ár á aðventunni hafa hótelstjórahjónin boðið eldri borgurum sveitarinnar á jólahlaðborð og er það alltaf ánægjuleg stund. Leikskólabörn koma í heimsókn í kjallarann á aðventunni og syngja fyrir viðstadda. Það er mjög skemmtilegt að fá yngstu kynslóðina í innlit.

Á útmánuðum er svo árshátíð félagsins haldin. Þá sér þriggja manna nefnd um skemmtiatriði, góður matur snæddur, sungið og dansað.

Félagar eru 92. Í aðalstjórn eru þrír, formaður, gjaldkeri og ritari, kosnir til þriggja ára og tveir eru í varastjórn. Starf Félags eldri Hrunamanna stuðlar að ánægjulegum og uppbyggjandi samskiptum eldra fólks og veitir því tækifæri að rækta vináttu við sveitunga sína. Í þessu starfi sannast að maður er manns gaman. Án þessa félags væri sveitarfélagið fátækara.

Formaður Félags eldri Hrunamanna er Björg Björnsdóttir, Hvammi, sími: 486-6639


Stjórn:

  • Björg Björnsdóttir, formaður
  • Loftur Þorsteinsson, gjaldkeri
  • Anna Magnúsdóttir, ritari