Loka valmynd

Félag eldri borgara í Skeiða-og Gnúpverjahreppi

Félag eldri borgara í Skeiða-og Gnúpverjahreppi

Skeiða- og Gnúpverjahreppur varð til eftir sameiningu Skeiðahrepps og Gnúpverjahrepps árið 2002. Þá var ekki starfrækt félag eldri borgara í Gnúpverjahreppnum en Kvenfélag Gnúpverja sá um félagsstarf fyrir aldraðra í því sveitarfélagi. Í Skeiðahreppi var starfandi félag aldraðra á Skeiðum sem var stofnað árið 1996.

Eftir sameiningu sveitarfélaganna fóru eldri borgarar í Gnúpverjahreppi í samstarf við Félag aldraðra á Skeiðum og árið 2003 var formlega stofnað Félag eldri borgara í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Vetrarstarfið hefst í byrjun október ár hvert, og er komið saman annan hvern föstudag í Bókasafnshúsinu í Brautarholti, húsnæðið hentar mjög vel fyrir þann félagsskap.

Á þessum samveru-fundum er ýmislegt gert sér til skemmtunar, s.s. upplestur, spilað á spil, sungin nokkur lög o.fl. Stundum eru fengnir gestir með fræðslu - og/eða skemmtiefni.

Alltaf er farið í tvær eins dags skemmtiferðir á sumri og reynt að fara eina til tvær leikhúsferðir á vetri.

Sveitarfélagið styrkir starfsemina og lánar húsnæðið í Bókasafnshúsinu endurgjaldslaust sem félagsmenn eru mjög þakklátir fyrir.

Í félaginu eru 48 félagar og vill stjórn félagsins hvetja íbúa hreppsins sem eru komnir á eftirlaunaaldur að ganga í félagið og styrkja með því og efla félagsstarfið.

Félag eldri borgara í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er í Landssambandi eldriborgara, en í því eru 53 félög úr öllum landshlutum. Markmið Landssambandsins er að byggja upp öflug samtök eftirlaunafólks sem gætir réttar aldraðra og vinni að hagsmunum þeirra gagnvart stjórnvöldum. Aðild að landssambandinu eiga félög fólks sem hafa náð 60 ára aldri.

Félögin innan Landssambandsins starfa sjálfstætt hvert á sínu félagssvæði og hafa það hlutverk meðal annars að vinna að tómstunda-, fræðslu-og menningamálum.

Formaður er Vilmundur Jónsson, Skeiðháholti, sími 486-5510


Stjórn

  • Vilmundur Jónsson, formaður
  • Ólöf Sigurborg Ólafsdóttir, gjaldkeri
  • Kristín Bjarnadóttir, ritari
  • Erlingur Loftsson, varaformaður
  • Sigríður Jónsdóttir, meðstjórnandi